12 nóv Vegan Saltkaramellu Hnetubollar
Þessir vegan hnetubollar urðu til núna um helgina og voru sérstaklega hugsaðir fyrir Hrekkjavökuna. Hafa krakkarnir gefið þeim nafnið Hnetubollar. Þar sem sykurþörf barnanna (og fullorðinna) getur aukist töluvert á þessum árstíma vildi ég reyna að koma til móts við þau og eiga eitthvað gómsætt í frystinum sem væri nánast jafn ávanabindandi og nammi en innihéldi lítið magn af sykri og fullt af næringarefnum. Það tekur smá tíma að gera þessa mola og henta þeir því sérlega vel að gera núna á tímum Covid þegar við þurfum öll að hægja á okkur og hlúa að okkur. Það er svo notalegt að eiga ljúfa stund í eldhúsinu að bralla í núvitund með það á bak við eyrað að vera að stuðla að heilbrigðari lífstíl allra á heimilinu.
Ég gerði tvöfalda uppskrift til þess að eiga nóg og notaði bæði lítil og stór muffinsform. Lítil fyrir börnin og stærri fyrir fullorðna. Þessi molar eru svo gómsætir og ávanabindandi að það krefst aga svo þeir klárist ekki fyrsta daginn. Þeir eru þó frekar hollir þannig að þótt þeir klárist þá þarf ekkert að hafa neitt samviskubit yfir því. Um að gera að búa einfaldlega til meira strax daginn eftir og margfalda uppskriftina eftir þörfum og getu.
Uppskriftin er unnin í grunninn út frá þessum dásamlegu Vegan molum sem voru fyrsta uppskriftin sem ég gerði þegar ég þurfti að breyta um mataræði heilsunnar vegna. Síðan eru liðin 4 ár og gaman að vera að þróa þá uppskrift lengra, enda er hún einstaklega vinsæl meðal heimilismeðlima og gesta.
Grunnlag:
- 1,5 bolli döðlur
- 50 gr valhnetur
- 1/2 tsk vanillu extraxt dropar
- 1/2 tsk sjávarsalt
Allt sett í matvinnsluvél og unnið þar til vel blandað. Best er að stoppa á meðan hráefnið er eins konar mjöl, eða áður en fer að myndast karmella og hráefnin safnast saman í einn bolta (sjá mynd). Setja teskeið af “deiginu” í muffinsform ef lítil, annars ca 2 tsk í stærri form og þétta vel niður í botn með fingrum þar til yfirborðið er nokkuð slétt. Þessi uppskrift gerir ca 6 stórar og 12 litlar. Sett í frysti á meðan unnið er í millilaginu.
Millilag:
- 1,5 – 2 dl hnetusmjör
- 3 msk kókosolía
- 1 msk hlynsíróp
- 1/2 tsk sjávarsalt
Öllu blandað saman og hitað yfir vatnsbaði eða hitað rólega í örbylgjuofni með því að hita í ca 15 sek, taka út og hræra og svo aftur og aftur þar til allt hefur blandast vel saman, áferðin er slétt og blandan lekur nokkuð auðveldlega ef hún er tekin upp með skeið og henni hallað. Formin tekin úr frysti og ca 1 tsk sett yfir botninn í minni formunum og ca 2 tsk yfir botninn í stærri formunum. Þetta er þó smekksatriði. Sett aftur inn í frysti og hafa í amk 10 mínútur. Athugið!! hér væri líka gott að blanda hökkuðum salthnetum út í, í stað þess að setja þær yfir súkkulaðið. Þá eru stykkin meira eins og Snickers.
Efsta lag:
- 125 gr súkkulaði að eigin vali (ég nota yfirleitt 70% súkkulaði og kýs Vegan)
- 2 tsk kókosolía
- 100-150 gr salthnetur (allt eftir smekk)
Súkkulaðið brætt með kókosolíu yfir vatnsbaði (eða með sömu aðferð og hér að ofan í örbylgjuofni). Bitarnir teknir úr frysti og ca 1-2 tsk af bræddu súkkulaði dreift jafnt fyir molann og áður en súkkulaðið harnðar að dreifa 2-3 salthnetum í súkkulaðið. Molarnir settir í frysti og leyft að vera í amk 30 mínútur.
Setjið svo í loftþétt ílát og má geyma molana í allt að mánuð í frysti. Gott er að taka þá út 5-10 mínútum áður en á að borða þá.
Vinsamlegast athugið! athugasemdakerfið er lokað eins og er.