Veganborgari með heimagerðu „vegan-beikoni“

Þessi veganborgari hefur verið uppáhaldsrétturinn minn til þess að bjóða upp á í matarboðum síðustu mánuðina.

Hann er einfaldur, spilar á bragðlaukana, hollur, mjúkur, sætur, léttur í maga og allt þar á milli.

Það er líka gaman að bjóða upp á þennan vegan borgara því allir virðast njóta hans <3

Uppskrift að borgurum fyrir 6

Brauðið

  • 2 stórar sætar kartöflur
  • Kókosolía/ólífuolía
  • Sjávarsalt og pipar
  • Eða gott og heilnæmt brauð/brauðbollur (hægt að kaupa flottar tilbúnar brauðbollur úr grófu korni í flestum matvöruverslunum)

Hitið ofninn á blástur í 180°C (eða undir og yfir hita á 200°C).

Skerið sætu kartöflurnar í ca 1 cm þykkar sneiðar. Raðið á bökunarplötu og penslið með kókosolíu eða ólífuolíu, kryddið með sjávarsalti og pipar. Bakið í ca 30 mín (snúið við þegar um 15 mín eru liðnar af eldunartímanum).

Borgarinn

  • 2 dl rauðar linsubaunir (ca 4 dl af vatni til að sjóða)
  • 2 tsk lífrænn grænmetiskraftur
  • 1 lítið blómkál eða 1/2 stórt (smátt saxað eða mulið)
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 tsk cumin
  • 1 tsk cayenne pipar
  • 1 tsk salt
  • (smá gróft spelt hveiti ef borgarinn er of blautur)

Sjóðið linsubaunirnar í ca 15 mín og bætið grænmetiskraftinum í vatnið. Geymið til hliðar eftir suðu.

Á meðan þær sjóða setjið blómkálshausinn í matvinnsluvél, notið töfrasprota eða saxið mjög smátt. Jafnið blómkálið út á bökunarpappír á bökunarplötu og bakið við 180°C þar til blómkálið er gyllt á lit (ca 10-15 mín).

Setjið blómkálið í pottinn með linsubaununum (ekki á hita) og bætið hvítlauknum og kryddunum út í (hveitinu ef þetta er of klístrað). Blandið allt vel saman.

Mótið svo borgara, ca 3-4 cm á þykkt. Steikið borgarana í 3-5 mín á hvorri hlið og raðið svo á ofnplötu (á bökunarpappír). Setjið svo ost á hvern borgara og inn í ofn í ca 10-15 mín eða þar til osturinn er bráðinn.

Meðlætið

Avocado sósa

  • 2 lítil avocado eða 1 stórt (vel þroskað)
  • 1/2 dl vegan majo (avocado majo er æði en margar tegundir til, meðal annars til mjög ódýr í Krónunni)
  • 1 dl vegan sýrður rjómi (t.d. oatly)
  • 1 msk gróft sinnep
  • 1/2 tsk karrí
  • 1 hvítlauksrif pressað
  • sjávarsalt og nýmalaður pipar

Setjið allt í matvinsluvél eða notið töfrasprota og blandið/maukið vel saman. Smakkið til með salti og pipar.

Sæt-Chili sósa

  • 1 dl vegan sýrður rjómi
  • 1 dl vegan majónes
  • 2-3 msk sweet chili sósa
  • 2 msk tómatsósa
  • 2 msk sterkt sinnep

Hrærið vel saman.

 

„Beikon“ Kókosflögur

  • 3-4 dl kókosflögur
  • 2 msk BBQ sósa (t.d. Mesquite Liquid Smoke frá Stubbs)
  • 1 msk tamarisósa
  • 1 msk agave
  • 1/2 tsk svartur pipar
  • 1/2 tsk reykt paprika

Blanda öllu saman og dreifa í þunnt lag á bökunarpappír á plötu – inn í ofn í ca 10-15 mín eða þar til þær eru lítillega brúnaðar. Fylgist vel með að þær brenni ekki.

Annað meðlæti

Cheddar Vegan ostur í sneiðum

Avocado ferskt skorið í sneiðar

Tómatar skornir í þunnar sneiðar

Súrar gúrkur

klettasalat (eða annað gott salat)

 

Raðið svo sætri kartöflu neðst – svo avocado sósan – klettasalat – borgarinn – sæt chili sósan – „beikon“ kókosflögurnar – restin af grænmetinu og toppið með annarri sætri kartöflu.

Berið fram með salati, heimagerðum frönskum eða ofnbökuðu rótargrænmeti.

Engar athugasemdir

Vinsamlegast athugið! athugasemdakerfið er lokað eins og er.