26 okt Vegan Bounty
Hér er uppskrift að dásamlegum vegan bounty nammi bitum. Svo einfaldir að gera og æðislegir að borða – vel mettandi líka.
Ég er farin að undirbúa mig fyrir jólin og ætla að eiga nóg af hráfæðis-nammi bitum, eins og þessum, í frystinum. Bæði til þess að við krakkarnir séum ekki að freistast í neitt annað og óhollara og líka til þess að halda áfram að skapa Plant-based/Vegan stemningu í kringum og um jólin. Þetta er pottþétt ein af þeim uppskriftum sem ég á eftir að gera fyrir jólin og eiga nóg af.
Kókosstykkið
- 1 1/2 bolli kókosmjöl eða kókosflögur
- 1/4 bolli kókosolía
- 2 msk hlynsíróp eða agave (eða önnur sæta)
Blandið í matvinnsluvél eða blandara þar til vel blandað og blandan er blaut og klístruð. Þéttið og mótið í kassaform, ca 1/2 – 1 cm þykkt, á bökunarpappír og setjið í frystinn í ca 15-20 mín. Takið úr frystinum og skerið í hæfilega stóra bita og setjið svo aftur í frystinn.
Súkkulaðihjúpur
- 100gr af dökku súkkulaði (vegan)
- 1 tsk af kókosolíu yfir vatnsbaði.
Bræðið saman yfir vatnsbaði. Takið kókosstykkin úr frysti og dýfið helming í súkkulaðið og þekið botn stykkjanna með súkkulaði (passa að stykkin séu vel köld, þá harðnar súkkulaðið hratt). Leyfið rest af súkkulaðinu að leka af og leggið svo öfugt á bökunarpappír. Gerið með öll stykkin og setjið svo aftur í frysti í 5-10 mín.
Súkkulaðiskraut
- 50 gr dökkt súkkulaði
- 1/4 tsk af kókosolíu.
- Möndluflögur, möndlur, kókosflögur, kasjúhnetur eða valhnetur.
Bræðið saman yfir vatnsbaði. Takið stykkin aftur úr frysti. Snúið stykkjunum við og festið með súkkulaðinu möndlur, kókosflögur, kasjúhnetur eða valhnetur ofan á stykkin. Dreifið svo smá af súkkulaðinu yfir hvert stykki og skreytið að vild. Setjið svo aftur í frysti. Þegar þau eru vel hörð, setjið þá í lokað ílát og leyfið að vera í frysti. Takið út 15 mínútum áður en á að bjóða upp á þau.
Vinsamlegast athugið! athugasemdakerfið er lokað eins og er.