17 nóv Bólgueyðandi Veganréttur með Tofu og Spergilkáli
Þessi dásamlega hlýji veganréttur er fullur af turmeric og B12. Frábær kvöldmatur fyrir alla fjölskylduna.
Að borða gulan mat sem inniheldur turmeric veitir mér innri vellíðan. Turmeric er eitt mest bólgueyðandi náttúruefni sem til er. Eftir að ég fór að gera mér grein fyrir hversu mikilvægt það er að maturinn sem við innbyrðum sé ekki bólgumyndandi (ss. sykur, unnar kjötvörur osfrv) fór ég að borða meira af mat sem er bólgueyðandi (e. anti-inflammatory). Flestir mínir heilsukvillar hafa verið vegna bólgumyndunar í líkamanum, slímhúð, taugakerfinu, liðum og svo framvegis og því ótrúlega mikilvægt á mínu heilsuferðalagi að ég velji að setja það í kroppinn sem veldur hvað minnstum skaða.
Þessi veganréttur varð til óvart eftir að hafa gert þennan dásamlega brunch frá Mæðgunum. Í raun bætti ég bara við núðlum og vann tofu-ið aðeins öðruvísi, skipti út spínati og lauk fyrir spergilkál. Þær mæðgur hafa verið mér svo mikill innblástur í matargerð á mínu heilsuferðalagi.
Þetta er mjög einfaldur, næringarríkur og mettandi kvöldmatur og ætti að kitla bragðlaukana hjá allri fjölskyldunni. Uppskriftin hentar 2-3 fullorðnum matarmiklum einstaklingum.
Tofurétturinn
- 350-400 gr firm tofu (skorið í tenginga)
- ca 300 gr spergilkál (skortið í munnbita)
- 1-2 msk steikingarolía (td góð ólífuolía)
- 2 hvítlausrif (pressuð)
- 2 cm ferskur engiferbútur (smátt saxað)
Hitið olíu á pönnu og léttsteikið hvítlauk og engifer í smá stund á meðalhita, hækkið aðeins hitann og bætið út í tofu. Léttsteikið á öllum hliðum þar til hliðarnar eru smá „crispy“ ca 2-3 mínútur á hverri hlið. Á meðan tofuið steikist blandið þá sósuna í skál. Bætið svo spergilkáli á pönnuna og leyfið að steikjast með í ca 2 mínútur.
Sósa
- 60 ml möndlumjólk
- 4 msk næringarger
- 2 msk tamarisósa
- 2 msk sinnep
- 1 tsk túrmerik
- 1/2 tsk sjávarsaltflögur
Hrærið allt saman í skál. Bætið svo sósu á pönnuna yfir tofu og spergilkál og blandið vel saman svo sósan þeki vel.
Núðlur
2 skammtar af bókhveitnúðlum (eða aðrar núðlur/pasta að eigin vali)
Hitið vatn að suðu og bætið núðlum út í og sjóðið eftir leiðbeiningum á pakkningu. Þær sem ég nota taka yfirleitt um 3-4 mínútur að sjóða.
Annað meðlæti
- Létt salat
- Avókadósneiðar setta ofan á
- Kasjúhnetur létt ristaðar
Skerið niður avocado í teninga eða sneiðar.
Berið fram með því að setja fyrst núðlur, svo tofublöndu og leggja svo hálft avocado ofan á hvern rétt.
Vinsamlegast athugið! athugasemdakerfið er lokað eins og er.