08 ágú Vegan karmellubomba – hráfæðikaka
Þessi vegan karmellubomba er himnesk! Það sætasta sem ég leyfi mér að gera. Upprunalegu uppskriftin hét Hráfæðibomba Helgu Gabríelu og má finna hér. Hún hefur verið stækkuð og breytt lítillega.
Þetta er stór uppskrift svo mér finnst gott að skera hana í sneiðar og frysta í lokuðum boxum, svo þegar einhver kemur í heimsókn er hægt að taka hana út 30-60 mínútum fyrr og gefa gestunum köku fulla af kærleik ❤
Þú þarft að eiga góða matvinnsluvél til þess að gera þessa góða.
Byrjið á að setja 3 bolla (um 300 gr af kasjúhnetum) í skál og hyljið með sjóðandi heitu vatni í um klukkustund. Ef þú hefur ekki tíma í þetta notaðu bara hráar kasjúhnetur, miðjulagið verður aðeins öðruvísi en alls ekkert síðra.
Hyljið bökunarform (25x20cm) með bökunarpappír og leggið til hliðar.
Botn
- 2 bollar klístraðar döðlur
- 2 bollar valhnetur
- 4 msk lífrænt kakó
- 1/2 tsk sjávarsalt
Setjið allt í matvinnsluvél og blandið vel. Hellið svo öllu á bökunarpappír og þjappið út í enda, mér finnst þægilegt að setja annað lag af bökunarpappír ofan á þrýsta ofan á með einhverju flötu. Setjið svo í frystinn.
Kremað millilag
- 3 bollar kasjúhnetur
- 1/2 bolli kakósmjör eða kókosolía
- 1/4 bolli hlynsíróp
- 3/4 bolli jurtamjólk, helst þykk eins og kókosmjólk eða þykk haframjólk eins og rjóminn frá Oatly
- 1/2 tsk sjávarsalt
- 2 tsk vanilla extrakt (eða fræin úr einni vanillubaun)
- (4 msk sítrónusafi ef þú vilt hafa smá ferskari keim sem líkist ostaköku)
Setjið öll hráefnin í matvinnsluvélina og blandið vel þar til áferðin er kremuð og mjúk. Hellið yfir botninn og setjið svo aftur í frystinn.
Ef þú ætlar ekki að bera kökuna fram sama dag er sniðugt að bíða með síðasta lagið. Setjið þá botninn í lokað fat og í frystinn, 2 klukkutímum áður en áætlað er að bera kökuna fram er gott að gera topplagið og setja yfir.
Karmellan á toppinn
- 1/4 bolli hlynsíróp
- 2 msk möndlusmjör (gott að gera það sjálfur)
- 1/2 tsk sjávarsalt
Setjið allt í matvinnsluvélina og blandið vel. Hellið yfir botlögin tvö og geymið í ísskap í um klukkustund.
Brætt súkkulaði á toppinn og aðrar hugmyndir til að setja ofan á
- 150-200 gr vegan dökkt súkkulaði
- 1/2 tsk kókosolía
Bræðið yfir vatnsbaði um 150-200 gr af vegan dökku súkkulaði ásamt 1/2 tsk af kókosolíu.
- Bláber
- jarðaber
- vínber (skorin í helminga eða 4 parta)
- granateplakjarnar
- hindber
- valhnetukjarnar smátt brytjaðir
- kasjúhnetur smátt brytjaðar
Dreifið ferskum berjum og hnetum yfir kökuna og endið á að dreifa bræddu súkkulaðinu yfir berin og kökuna.
Þessi vegan karmellubomba er líka góð án berja og súkkulaðis. Um að gera að nota ímyndunaraflið til þess að bera hana fram fyrir ólíka hópa við ólík tilefni.
Njótið!
Vinsamlegast athugið! athugasemdakerfið er lokað eins og er.