12 nóv Heimagert Kasjúhnetusmjör – gott á allt
Eitt það einfaldasta sem ég geri reglulega og á nánast alltaf í ísskápnum er heimagert Kasjúhnetusmjör. Það er bara eitthvað svo óendanlega ljúffengt við það. Allir sem hafa smakkað það hjá mér eiga það sameiginlegt að segja á meðan þau njóta þess að borða það ofan á brauði, próteinpönnsum eða smoothie skál: “ó mæ, þetta kasjúhnetusmjör er það besta sem ég hef smakkað”. Hver leyndardómurinn er veit ég ekki, en mig grunar að hann liggi í einfaldleikanum.
Það er einstaklega gott á súrdeigsbrauð, t.d. úr Brauð og Co. og einstaklega ljúffengt að setja annað hvort sykurlausa sultu eða eplaskífur með smá kanildass yfir.
Það eina sem þú þarft eru kasjúhnetur, bragðlaus kókosolía, sjávarsalt og matvinnsluvél.
Innihald
- 500 gr kasjúnhetur (kaupi þær brotnu í Krónunni, ódýrar og góðar í þetta)
- 4 msk bragð-og lyktarlaus kókosolía
- 2 tsk sjávarsalt
Aðferð
Allt sett í matvinnsluvél og maukað þar til komin er ákjósanleg áferð. Hitinn vegna hraða vélarinnar tryggir að hneturnar breytast í smjör en það hjálpar að nota kókosolíuna til þess að fá góða áferð. Stundum nota ég aðeins meiri kókosolíu og stundum aðeins minni, fer allt eftir hversu mjúkt mig langar að hafa kasjúhnetusmjörið hverju sinni. Ef þig langar í meira salt má alveg bæta því út í og blanda aukalega smá stund í lokin. Bragðbætið með salti og aukið mýkt smjörsins með kókosolíu eftir smekk.
Ég fæ mér þetta kasjúhnetusmjör mjög oft ofan á kolvetnaskert ristað brauð með þunnum eplaskífum eða sultu. Einnig er svo dásamlegt að smyrja því ofan á próteinpönnsur, raða nokkrum fallegum berjum á og setja svo smá döðlu eða kókossíróp ofan á. Að lokum finnst mér óendanlega gott að setja 1-2 msk af kasjúhnetusmjöri eða öðru hnetusmjöri ofan á smoothie skálarnar mínar.
Njótið <3
Vinsamlegast athugið! athugasemdakerfið er lokað eins og er.