08 ágú HEILANDI DAL FYRIR LÍKAMA OG SÁL
Þetta Indverska Heilandi Dal hefur verið uppáhaldið mitt í mörg ár (fengið frá Himneskt.is 🖤 ) Það er ekki bara bragðgott, veitir hlýju og ró heldur heilar það líkama minn, huga og sál.
Ég er með sterkust meltingareinkenni Vata, ef þið þekkið Ayurvedic fræðin eitthvað þá vitiði hvað ég er að tala um. Ég þarf að borða heitan og auðmeltanlegan mat. Það er mjög algengt með þá sem eiga við meltingarvandamál að stríða. Ég er Vegan bæði vegna þess að það er betra fyrir samfélagið okkar, en líka vegna þess að mér líður betur á hreinu plöntufæði.
Þessi réttur hefur oft hjálpað mér að ná jafnvægi aftur þegar ég hef verið að borða eitthvað sem líkaminn minn þolir ekki. Ég man sérstaklega í eitt skipti þegar ég var í vinnuferð í Bandaríkjunum og hafði ekki passað nógu vel hvað ég bar að borða sem endaði á óléttumaga, bólgum í liðum og magakrömpum með hita og vanlíðan. Það voru þrír dagar eftir af ferðinni þegar ég fór út í búð og keypti allt í þennan rétt sem og Glóandi Grænu Bombuna. Ég fékk mér Græna í morgunmat, stórt salat í hádeginu og þetta dásamlega Dal í kvöldmat og náði þannig heilsunni á gott ról aftur.
Mér finnst best að borða Heilandi Dal með Quinoa, sætum kartöflum og fersku salati. Það er líka gott að bera þetta fram með sýrðum rjóma frá Oatly og góðu Mango Chutney (sleppa því samt ef þið eruð að forðast sykur). 🖤
Indverskt Dal
- 1 meðalstór laukur
- 2 hvítlauksrif
- 1 lítið blómkálshöfuð eða ½ stórt, skorið í munnbita
- 1 cm engiferrót (eða 2 msk engiferskot)
- 1 ½ msk góð karrí blanda (td garam masala)
- 1 tsk túrmerik
- 1 msk kókosolía
- 250g rauðar eða grænar linsur (eða 1 dós af lífrænar niðursoðnum linsubaunum)
- 1 dós þykk kókosmjólk
- 400-500 ml vatn (200-300 ml af vatni ef notaðar eru niðursoðnar linsubaunir)
- 1 ½ tsk sjávarsalt
- 3-4 tsk sítrónusafi
- Vænn slurkur af hvítlauks ólífuolíu
- Byrjið á að skera lauk, hvítlauk, engifer og blómkál í bita.
Hitið olíu í potti og mýkið laukinn, engiferið og hvítlaukinn ásamt kryddum í 2-3 mínútur. Þetta er gert til að opna bragðið af kryddunum. Bætið svo blómkálsbitunum út í, því næst linsunum, vökvanum og saltinu.
Látið suðuna koma upp og lækkið svo hitann þannig að allt malli í rólegheitum í u.þ.b. 20 mín – eða þar til blómkálið er orðið mjúkt og linsurnar orðnar mjúkar.
Hrærið í af og til og fylgist með að brenni ekki í botninn. Hafið pottinn opinn, en ekki of háan hita. Í lokin, þegar dalið er tilbúið, bætið þá sítrónusafanum og hvítlauksolíu út í. Smakkið, ef vantar bragð bætið við smá.
Meðlæti
Sætar kartöflur
- stór sæt kartafla
- 2 msk góð olía
- sjávarsalt
- rósmarín
- svartur pipar
Hitið ofninn á 180°C blástur eða 200°C yfir og undir hiti. Skerið kartöflu í tenginga og setjið í skál, hellið yfir olíunni og blandið vel þannig að olían þeki alla kartöflubitana. Setjið yfir salt, pipar og rósmarín eftir smekk og blandið vel saman. Setjið á bökunarpappír á bökunarplötu og inn í ofn í ca 20-25 mínútur
Quinoa
- 1 bolli af quinoa – skolið með vatni
- 2 bollar af vatni
- 1 tsk af góðum grænmetiskrafti
Setjið allt í lítinn pott og sjóðið á vægum hita í ca 10-15 mínútur eða þar til allt vatn er gufað upp.
Annað meðlæti
- Sýrður rjómi frá Oatly
- Gott Mango Chutney
- Ristaðar kókosflögur
Vinsamlegast athugið! athugasemdakerfið er lokað eins og er.