Graskerssúpa með sætum kartöflum

Þessi Graskerssúpa er svo góð að orð fá því ekki lýst. Hún er silkimjúk í munn, hlýjar kroppinn, rjómkennd, sæt, braðgmikil, fyllandi og bara hreint út sagt geggjuð.

Ég er algjör graskersaðdáandi og verð það meira með árunum. Uppáhalds morgunsmoothie-inn minn er einmitt Kryddaður Graskers Smoothie hér af síðunni.

Hún er mjög einföld að gera og það tekur bara um 20 mínútur að undirbúa og 25 mín að sjóða. Ekki langur tími og frábær hvort sem er um helgar eða á virkum dögum. Það er líka gott að gera nóg af henni og eiga til að hita upp. Svo má auðvitað bæta út í hana kjúkling eða öðrum próteingjöfum ef þið viljið enn meiri fyllingu í hana.

Það sem þú þarft

  • 1 msk kókosolía
  • 1 laukur – skorin smátt
  • 1 gult grasker (Butternut squash en mega alveg vera aðrar tegundir) – meðalstærð – skorið í teninga
  • 1 sæt kartafla – meðalstór – skorin í teninga
  • 1 grænt epli, afhýtt, skorið í teninga og kjarnhreinsað
  • 1-2 msk lífrænn grænmetiskraftur
  • 1 – 1,2 L vatn (rétt ofan við grænmetið til að sjóða)
  • 1,5 tsk kanill
  • 1 tsk Madras Karrí (eða annað karrí)
  • 1/2 tsk Engifer (þurrkað)
  • 1/4 tsk negull
  • 1-2 tsk gott sjávarsalt
  • 200-300 ml af kókosmjólk (rjóma)
  • Toppað með: graskersfræjum og spírum

 

Aðferð

  1. Hitið kókosolíuna í stórum potti á meðalhita og bætið lauknum út í. Leyfið honum að mýkjast í 5-6 mín.
  2. Bætið ofan í graskerinu, kartöflunni, eplinu, grænmetiskraftinum, vatninu, kanil, karrí, engifer og negul. Blandið varlega.
  3. Hækkið hitann, setjið lok á pottinn og látið malla í 20-25 mín eða þar til grænmetið er soðið í gegn (hægt að stinga gaffli í gegn auðveldlega). Slökkvið á hitanum.
  4. Notið töfrasprota og blandið allri súpunni, bætið við kókosmjólk og salti eftir nokkrar mínútur. Munið að sýna þessu þolinmæði því það tekur tíma fyrir súpuna að þykkjast og verða silkimjúk.
  5. Berið fram heita súpuna og bætið ofan á hana spírum og graskersfræjum – jafnvel smá kókosrjóma.
  6. Geymið afganginn í ísskáp.
Engar athugasemdir

Vinsamlegast athugið! athugasemdakerfið er lokað eins og er.