08 ágú GRÆNN DRYKKUR – GLÓANDI GRÆNA BOMBAN
Hluti af daglegri sjálfsumhyggju minni er grænn drykkur – Glóandi Græna Bomban og er uppskriftin að honum hér fyrir neðan. Það besta sem við gerum til að lifa hamingjuríku lífi er að hugsa vel um andlega og líkamlega heilsu okkar.
Þetta er grænn drykkur sem ég hef drukkið nær daglega síðastliðin ár. Ég drekk um 700-1000 ml af honum og er hann byggður á uppskrift Kimberly sem hún kallar Glowing Green Smoothie og ég hef staðfært sem: GLÓANDI GRÆNA BOMBAN
Þessi drykkur er bjargvætturinn minn. Síðan ég byrjaði að drekka hann hefur margt breyst hvað varðar mína heilsu og með því að drekka hann á fastandi maga á hverjum degi get ég verið viss um að þrátt fyrir allt sé ég að fá góða næringu í upphafi dags. Hann er það fyrsta sem ég læt ofan í mig (fyrir utan heitt sítrónu vatn, vítamín/bætiefni og kaffi) og er hann fljótur að komast þannig í gegnum magann og í smáþarmana þar sem næringin er tekin upp í líkamann.
Munið bara fyrst og fremst að hafa alltaf amk 70% af drykknum grænmeti og 30% ávexti.
Uppskriftin mín er oftast þessi:
- 100 gr spínat
- 50-100 gr romain salat/grænkál (eða bara annað grænt salat sem þið eigið)
- 3-4 stilkar sellerí
- 1 lífrænt epli
- 1 lífrænn banani
- 1 lífræn sítróna (safinn úr henni)
- 1-2 cm bútur af engifer og/eða slatti af ferskri steinselju (valkvætt en mæli með að hafa)
- 300-400 ml ískalt vatn (eða eftir þörfum)
Aðferð:
Ef þið eigið góðan og stóran blandara er auðvelt að blanda þetta.
Ég á góðan blandara og mæli með að allir eigi einn þannig en fyrst notaði ég Nutribullet og hann nýttist ágætlega en ég mæli alltaf með að eiga góðan blandara og góða matvinnsluvél. Ég þrái þó að eignast Vitamix 🖤.
Ég set salatið/kálið ásamt sellerí og vatni í blandarann og blanda vel í ca 2 mínútur
Bæti þá eplinu, banana og sítrónusafan og blanda í ca 30 sek – 1 mín í viðbót.
Stundum set ég avocado og minnka þá magnið af einhverju öðru. Það er líka mjög gott að setja ferskar kryddjurtir ef þið eigið eða ferskt engifer, t.d. hef ég sett steinselju, myntu og basilikku og finnst mér allt fara þessum drykk vel. Ef ég á ekki epli nota ég peru, mangó eða eitthvað annað. Það má alveg mixa og matcha eins og manni dettur í hug en halda alltaf hlutfallinu 70/30 og reyna að hafa allt lífrænt.
Það sem þið þurfið að eiga:
Spínat og grænkál eða Romain (eða bara blandað salat – má líka vera bara spínat), sellerí, epli, banani, sítróna eða sítrónusafi. Gott líka að eiga: avocado, ferskar kryddjurtir, peru, mangó.
Vona að þið prófið og njótið vel! Væri líka gaman að heyra ef þið búið til ykkar eigin útgáfu sem ykkur finnst betri <3
Vinsamlegast athugið! athugasemdakerfið er lokað eins og er.