Að endurforrita hugsanir og innri trú með orðum

Orð hafa meiri áhrif en við gerum okkur grein fyrir þegar kemur að því að endurforrita hugsanir og innri trú.  Þau móta hugsanir okkar, viðhorf og jafnvel líkamlega heilsu. Innra barnið okkar – sá hluti sem geymir fyrstu upplifanir okkar og tilfinningar – trúir oft orðum og skilaboðum sem við höfum ekki meðvitað valið að trúa. Þessi orð geta verið hlekkir sem halda aftur af okkur, eða leiðarljós sem styðja okkur. 

Þegar orð eða hugsanir stinga okkur, þegar við finnum fyrir óþægindum eða sársauka vegna þeirra (triggerast), er það oft merki um ósamræmi innra með okkur. Þetta ósamræmi getum við nýtt sem tækifæri til að endurforrita, með því að byggja upp nýja innri trú og viðhorf sem styðja við vellíðan okkar og framtíðarsýn.

Mitt eigið ferðalag

Ég er sjálf á þessari vegferð. Í mörg ár hef ég glímt við króníska verki og líkamlega kvilla sem virðast án skýringa. Þetta ferðalag hefur kennt mér ótrúlega margt – meðal annars hversu öflugur lækningarmáttur orða og tungumáls getur verið.

Allt sem við leyfum inn í líf okkar – hvort sem það er áþreifanlegt eins og matur eða huglægt eins og orð – hefur áhrif. Það er ekki nóg að greina hvað amar að. Það sem skiptir máli er hvernig við tölum við okkur sjálf um þá upplifun. Hvaða merkingu við setjum í upplifun okkar. 

Skilaboð sem segja að heilun sé möguleg verða ekki trúverðug nema við vinnum með innra barnið okkar, undirmeðvitundina og dulvitundina. Þessir hlutar þurfa að læra, í gegnum hlý orð og staðfasta ást, að tilvera í vellíðan og jafnvægi sé raunhæfur möguleiki. Það er okkar eigið verkefni að leiðbeina þeim þangað.

Þjóðarsaga og erfðaminni

Á Íslandi geymum við mörg erfðaminni sem tengist fátækt, hörðum náttúruskilyrðum og óöryggi fyrri kynslóða. Þetta getur haft áhrif á innri viðbrögð okkar – skapað varnarviðbrögð og ótta sem fylgja okkur inn í nútímann. Þrátt fyrir að þessi áhrif séu til staðar, eru þau ekki óbreytanleg. Það er okkar að breyta þeim. Við höfum getu til að kenna líkama okkar, huga og sál að vellíðan og jafnvægi eru réttur okkar og raunhæfur möguleiki í þessu lífi.

Manifesto: Frá mér til mín

Mig langar að deila með þér orðum sem ég nota til að styrkja sjálfa mig á minni vegferð. Að skrifa, lesa og endurtaka þessi orð hjálpar mér að skapa rými innra með mér þar sem lækning og vellíðan geta blómstrað.

Ég trúi á heilun. Ég trúi að líkami minn, hugur minn og sál séu hönnuð til að finna jafnvægi, sátt og ró.
Heilun flæðir áreynslulaust í gegnum mig, og ég treysti innri visku líkama míns til að leiða mig áfram.
Ég er heil og verðug eins og ég er.
Líkaminn minn er sterkur, seigur og þjónar mér með ást og styrk.
Hugur minn er rólegur, opinn, jákvæður og skapandi.
Taugakerfið mitt er stöðugt, rólegt og aðlögunarhæft og styður mig í gegnum allar áskoranir og umbreytingar.
Ég treysti því að óþægindin sem ég upplifi séu tímabundin og innihaldi skilaboð sem leiða mig áfram. Ég hlusta á líkama minn með kærleika og bregst við með samkennd, mildi og trausti. Á hverjum degi læknast ég á dýpri hátt og tengist þeirri heild sem þegar er til staðar innra með mér.
Ég er heil.
Ég er örugg.
Ég er nóg.

 

Að búa til þitt eigið manifesto

Ef þessi orð snerta þig, þá vil ég hvetja þig til að búa til þitt eigið manifesto – þína eigin leiðarlýsingu til að endurforrita hugsanir og innri trú. Byrjaðu á því að velta fyrir þér eftirfarandi spurningum:

  • Hvað þýðir heilun fyrir mig?
  • Hvað trúi ég að líkami minn, hugur og sál séu fær um?
  • Hvaða jákvæðu og hlýju orð myndi ég segja góðum vini í sömu stöðu?
  • Hvernig get ég virkilega sætt mig við og minnt mig á að ég er alltaf nóg, alveg eins og ég er núna?

 

Endaðu svo á einföldum staðhæfingum sem veita þér styrk, eins og:

„Ég er nóg.“

„Ég er elskuð/aður/að.“

„Ég er örugg/ur/t.“

Ég vona að þessi orð veiti þér innblástur. Ég væri forvitin að heyra hvaða hugmyndir snertu þig mest – og hvernig þitt manifesto lítur út.

Fylgdu Hamingjudropum á Facebook eða Instagram og fáðu daglegan innblástur að heilnæmari tilveru

Engar athugasemdir

Vinsamlegast athugið! athugasemdakerfið er lokað eins og er.