Hamingja er ástand

Hamingja er ástand: Lærðu að byggja upp hamingjuríkara líf

Flestir misskilja hvað hamingja raunverulega er og hvernig við getum upplifað hana í lífinu.

Hamingja er ekki tilfinning; hamingja er ástand.

Hamingja er ástand sem skapast þegar við virkjum innra með okkur það sem við sjálf túlkum og upplifum sem jákvæðar tilfinningar. Þetta er einstaklingsbundið og síbreytilegt ástand sem ekki er hægt að fjöldaframleiða eða tryggja með einni nálgun.

Hamingjan hefur ekkert með aðra að gera, þótt aðrir geti vissulega vakið upp jákvæðar tilfinningar innra með okkur. Það er þessi persónulega upplifun sem gerir hamingjuna svo ólíka fyrir öllum.

Tilfinningar eru túlkaðar og upplifun þeirra er mjög ólík meðal okkar. Eins geta atburðir vakið ólíkar tilfinningar hjá mismunandi fólki. Sumir upplifa nánd sem jákvæða, á meðan aðrir upplifa hana neikvætt. Spenna getur verið jákvæð fyrir suma, en neikvæð fyrir aðra.

Hvernig er þá hægt að skapa stöðugri hamingju?

Lykilinn er að finna út hvaða umhverfi og aðstæður vekja jákvæðar tilfinningar hjá þér, byggt á þinni eigin túlkun. Þannig geturðu nært og styrkt þitt hamingjuástand; innra með þér .

Til dæmis byrja ég marga morgna á að fara á hlaupabrettið og dansa við tónlist sem opnar hjarta mitt og skapar grunn að hamingjuástandi sem ég tek með mér inn í daginn. Þannig virkja ég líkama, huga og sál og kem þeim í samhljóm. Fyrir nokkrum árum var líkaminn minn farinn að segja nei við lífi sem ég hafði skapað, og ég brann út. Það eru komin sjö ár síðan, og ég er enn að finna leiðina að langvarandi sátt og hamingjuástandi.

Að læra hvað virkar fyrir þig

Það tók mig tíma að átta mig á því að veikindin mín og ofsaþreyta voru viðbrögð við því hvernig æskumynstrið og umhverfið hafði mótað mína túlkun á jákvæðum tilfinningum. Ég hafði ekki leyft mér, eða lært, að skilja hvað veitir mér sjálfri jákvæðar tilfinningar og hvernig ég gæti virkjað þær innra með mér.

Samanburður er einnig einn helsti þátturinn sem kemur í veg fyrir að við upplifum hamingjuástand. Í litlu samfélagi eins og á Íslandi er auðvelt að bera sig saman við aðra. Á þeim tíma þegar samfélagsmiðlar voru orðnir stór hluti af lífi okkar flestra, byrjaði ég að trúa því að eitthvað væri að mér ef ég upplifði ekki það sem „á að“ veita hamingju.

Það var ekki fyrr en ég byrjaði að hlusta á eigin sannleika og loka mig af frá öllum samanburði og túlkun annarra á jákvæðum tilfinningum sem ég fór að finna stöðugri hamingjuástand. Ég fór að átta mig á hvað raunverulega nærir mig og vekur jákvæðar tilfinningar, og þannig varð auðveldara fyrir mig að lifa lífi sem er í samræmi við mína innri þörf.

Að greina hvað skapar hamingju fyrir þig

Ef þig langar að byrja að finna út hvað skapar hamingju fyrir þig, getur verið gagnlegt að gera lista yfir það sem vekur jákvæðar tilfinningar innra með þér og það sem þú heldur að ætti að vekja jákvæðar tilfinningar innra með þér en gera það ekki. Hér er smá innsýn inn í minn lista:


Það sem ég hef lært að virkjar ekki jákvæðar tilfinningar hjá mér:

  • Óhollur matur
  • Keppni og samkeppni
  • Samvera í veislum og yfirborðskennd samskipti
  • Samfélagsleg þátttaka og vera ofur upplýst; fréttir og miðlar
  • Mjög mikil gleði og læti, eins og oft sést á samkomum, í leikhúsum eða tónleikum
  • Að ná árangri, sigra eða vera dáður
  • Samþykki annarra
  • Djamm og áfengi
  • Ytri markmið og stjórnun
  • Kaldhæðni og húmor sem snýst um að gera lítið úr öðrum
  • Veraldlegir hlutir
  • Sambönd

Það sem raunverulega kveikir jákvæðar tilfinningar hjá mér:

  • Kærleikssamband við alheiminn og skilyrðislaus ást
  • Sköpun fyrir sjálfa mig
  • Að læra eitthvað nýtt sem vekur áhuga minn
  • Hreyfing: Dans, hlaup, og hopp (í því mæli sem ég get)
  • Hollur matur og gott kaffi
  • Lestur
  • Vera í skapandi umhverfi
  • Teikna, föndra og hlusta á uppbyggjandi tónlist
  • Að vera til staðar fyrir börnin mín og skapa frið fyrir þau
  • Rólegir dagar og vera í núinu
  • Sól
  • Litrík náttúra
  • Vera úti í góðu veðri
  • Að gefa bros og fá bros í staðinn
  • Að vera hluti af samveru sem er þægileg og nærandi
  • Að lifa í friði og sátt með líkama, huga og sál

Hamingja er ástand

Að lifa hamingjuríku lífi snýst um að skilja og virkja þinn eigin sannleika um það sem skapar jákvæðar tilfinningar hjá þér. Þegar við treystum okkar eigin sannfæringu og losum okkur úr viðjum venja og samanburðar, gefum við okkur betri möguleika á að upplifa stöðuga hamingju.

Engar athugasemdir

Vinsamlegast athugið! athugasemdakerfið er lokað eins og er.