Vegan pizza

Það er orðið svolítið langt síðan við fórum að gera þunnar speltpizzur hér heima á föstudögum og núna eru pizzakvöldin gjarnan með alls konar útfærslum af pizzum, enda enginn með sama smekk hér á heimilinu og hvað þá þarfir.

Ég geri sjálf speltbotn (fæ í magan af öllum öðrum pizzum en þessum) og fékk uppskriftina upprunalega frá Ebbu en mér skilst að hún hafi fengið uppskriftina frá Sollu. Þessi uppskrift er víða þekkt og margir sem kannast við hana.

Við notum lítinn pizzaofn – sem við höfum átt í að verða 15 ár (sjá mynd). Hann er alltaf jafn góður og pizzurnar verða svo góðar úr honum. Mér finnst líka æðislegt að grilla pizzur og er alveg hægt að grilla þessa botna. En það er líka hægt að baka í ofni.

Ég geri alltaf tvöfalda uppskrift og gera það 6 pizzur (ég elska að eiga afgang í nesti fyrir krakkana og nasl yfir helgarnar).

Pizzabotn

500 gr Spelt hveiti (hægt að nota bæði gróft og fínt – td gott að byrja á því að nota 50/50)

2 msk vínsteinslyftiduft

2 tsk salt

4 msk kaldpressuð ólífuolía

2 tsk Oregano (þarf ekki og ef þið notið pizzasósu með oregano í er þetta alveg óþarfi)

260-280 ml heitt vatn

Hita ofninn í 180-200° , blanda þurrefnum saman td með gafli. Bæta svo olíunni og vatninu út í og blanda öllu með gaffli eða skeið. Nota svo hendurnar til að hnoða létt í lokinn. Má nefnilega ekki hræra/hnoða þetta deig of mikið. Bý svo til renning og skipti í 6 jafna hluta. Flet út frekar þunnt, en í samræmi við stærðina á pizza ofninum og baka svo hvern botn (án alls áleggs, sósu eða osts) í 5 mín í ofninum á bökunarpappír.

Set svo áleggið á og hita í pizzaofninum eða grillinu (eða ofninum í ca 5 mín).

Pizza-toppings

Best finnst mér að nota heimagerða pizzusósu en þá blanda ég lífrænni tómatsósu saman við tómatpúrru 50/50. Bæti svo út í oregano, salt og pipar (gott að bæta smá hlynsírópi út í líka ef þið eruð ekki að forðast sætuna).

Dreifi vel yfir pizzabotninn og svo sem „ost“ set ég næringarger ofan á pizzuna, hvort sem er ofan á „toppings“ eða bara beint yfir pizzasósuna.

Stundum set ég vegan ost yfir en það er orðið mjög sjaldan. Mér líkar ekki við unnar vegan vörur, frekar en aðrar unnar vörur og forðast það því eins og ég get. En stundum mát breyta til og ef vegan ostur er þinn ostur þá er um að gera að nota hann.

Annar valmöguleiki er að setja næringarger ásamt muldum kasjúhnetum í staðinn fyrir ost – það er æði og ennþá náttúrulegri og ferskari valmöguleiki en vegan osturinn.

Svo er bara að setja ofan á í samræmi við þarfir og langanir hvers og eins 🙂

  • Tofu (skorið smátt)
  • Sveppir (skornir smátt)
  • Paprika (skorin smátt)
  • Spínat
  • Klettasalat
  • Tómatar (skera í þunnar sneiðar)
  • Jarðaber (skera í þunnar skífur)
  • Granateplakjarnar
  • Avókadó (sker í litla bita eða þunnar skífur)
  • Pistasíuhnetur
  • Valhnetur
  • Furuhnetur
  • Hvítlauksolía (heimagerð eða keypt)
  • salt + pipar (eftir smekk)

Svo er bara um að gera að prófa sig áfram með alls konar álegg. Það er líka mjög gott að nota eldað rótargrænmeti, t.d. rauðrófur, eggaldin, grasker, lauk. En sjálfri finnst mér best að vera með ferskt álegg.

Ef þið prófið þá vonandi njótið þið jafnvel og ég 😀

Engar athugasemdir

Vinsamlegast athugið! athugasemdakerfið er lokað eins og er.